Ísland hefur lengi státað sig af fjölda rithöfunda og útgefinna bóka á íbúa. Slíkt orðspor sprettur ekki upp úr tómarúmi. Því miður hafa rannsóknir sýnt að íslensk börn eru ekki  nógu læs og sífellt stækkandi hlutfall þeirra getur ekki lesið sér til ánægju eða gagns. Ýmislegt hefur verið gert til þess að vinna gegn þessari þróun. Menntamálastofnun er í átaki við að efla ritlistarkennslu, rithöfundar á borð við Ævar Þór Benediktsson hafa staðið fyrir lestrarátökum sem ná raunverulega til krakka og Sögur og KrakkaRÚV hafa heldur betur lagt sitt af mörkum. En samkeppnin við tölvur og sjónvarp er samt hörð svo það þarf að tjalda öllu til. Reynslan af 826 miðstöðvunum í Bandaríkjunum sýnir að þarna er raunverulegur möguleiki til að hafa varanleg áhrif á íslenska æsku. Það er langtímaverkefni að koma á fót slíkri miðstöð í Reykjavík, en það á ekki að fæla fólk frá markmiðinu. Áhuginn er mikill hjá foreldrum, íbúasamtökum, borgaryfirvöldum og einkareknum sjóðum. En þrýstingur frá íbúum er samt nauðsynlegur til þess að svona verkefni verði að veruleika. Hvort sem þú vilt styðja barnið þitt, eða önnur börn, til skapandi starfa eða bara lífga upp á hverfið þitt með jákvæðri og uppbyggilegri starfsemi, þá ættir þú að hvetja þína fulltrúa til þess að gefa þessu verkefni brautargengi. Erlendis hafa miðstöðvar sem þessar ekki bara gefið börnum lífsnauðsynleg tækifæri, þau hafa einnig haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og uppbyggingu á svæðinu.

27983159_10214371126930575_1952587152845437659_o

Reglulega eru haldnar stakar ritsmiðjur á vegum bókasafna og rithöfundar fengnir til að heimsækja skóla. Markús hefur haldið fjölmargar ritsmiðjur í samstarfi við fjölda stofnanna, en þær hafa verið á stöðugu flakki. Börn eiga skilið varanlegan samastað þar sem þau geta fengið útrás fyrir sköpunargleðina og sagt sínar sögur í öruggu umhverfi. Það hefur líka verið ítrekuð ósk barnanna og foreldranna að það sé hægt að sækja ritsmiðjur í lengri tíma á veturna og stofnun ritvers eða barnamenningarhúss væri stórt skref til þess að þær óskir rætist.

 

Þetta hafa aðstandendur haft að segja um ritsmiðjur Markúsar:

„Ástarþakkir fyrir flott námskeið.
[X] var mjög ánægð á námskeiðinu og jákvæð eftir ritsmiðjuna hjá þér. Ég vona að það muni hafa góð áhrif bæði á lestraráhuga hennar og efli sjálfstraust hennar í skrifum. Hún hefur verið frekar sein með að læra að lesa og með minnimáttarkennd gagnvart því svo það var frábært tækifæri fyrir hana að fá að nýta sér sköpunargleðina sem hún hefur og tengja það skapandi skrifum og virkaði mjög hvetjandi fyrir hana. Hún kæmi alveg bókað til þín á annað námskeið.“

„Sonur minn var mjög ánægður með smiðjuna og kom glaður heim báða dagana. Hann var spenntur að sýna okkur afraksturinn og segja frá námskeiðinu. Það var augljóst að hann lærði leiðir til að skapa stemningu og gera sögupersónurnar dýpri.“

„[X] kom heim í skýjunum eftir þetta flotta námskeið. Sagan sem hún skrifaði með þinni hjálp kallaði hún sjálf eitt það flottasta sem hún hefur gert.“

„Smiðjan var æði! [X] hefur ekki hætt að skrifa sögur síðan. Það var líka ótrúlegt að sjá hana lesa hátt og skýrt fyrir framan alla. Hún hefur verið að kljást við kvíða í nokkur ár og heldur sig frekar til hlés en þú náðir vel til hennar.
Hefði viljað að þetta væri yfir lengri tíma því að henni fannst svo gaman. Henni langar að fara aftur. Mjög vel gert hjá þér líka að ná svona vel til allra aldurshópanna sem voru þarna.“

„Heilt yfir frábært námskeið. Dóttir mín sem er venjulega alls ekkert of hrifin af lestri og skrift fann sig fullkomlega a námskeiðinu. Hún hlakkaði alltaf til að mæta og fékk nýja sýn á bækur,lestur og aukna færni í að skrifa sögur. Bara allt jákvætt. Mikið vildi eg að svona námskeið væri kennt í skólanum hennar og fyrir alla krakka.“

„Ég spurði [x] hvernig henni hefði líkað og hún sagði með mikilli tilfinningu að þetta hefði verið alveg frábær smiðja, hún hefði hlakkað til alla vikuna að taka þátt. Við foreldrarnir getum alveg vottað það, annars vegar var hún uppfull af því sem þau voru að gera daginn sem var smiðja, fór yfir það allt með okkur heima, las söguna og hélt áfram að skrifa. Hún hlakkaði sérstaklega til fimmtudaga og nokkra fimmtudagsmorgna þegar hún vaknaði var hún með klukkustundirnar á hreinu þar til smiðjan átti að byrja.

Það að verkefnið endi með því að það verður gefin út bók finnst henni bæði merkilegt og gaman. Ég upplifi það aðeins að það gefi smiðjunni meira vægi.
Mörg önnur viðfangsefni hafa fangað athygli og veitt gleði, en ég held ekkert eins og þetta.

Það sem mér fannst frábærast við smiðjuna var hvernig Markús náði að kveikja þvílíkt mikinn áhuga og jákvæðni á söguskrifum sem skilaði sér í því að [x] lagði sig alla fram og nýtti sér leiðbeiningar hans. Hún nálgast sögugerð öðruvísi, er áhugasöm og örugg með sig og hefur tekið miklum framförum í ritun. Að auki, þar sem ég vinn á skrifstofu skóla- og frístundasviðs. þá finnst mér þessi smiðja dæmi um fyrirmyndarverkefni í eflingu læsis. Verkefnið er unnið í frelsi og leik og ég sé að það skilar [x] sem mun betri í rituninni í skólanum.“

Hér má svo lesa hvatningarbréf frá Dave Eggers, öðrum stofnenda 826 National:

Markus letter EGGERS