Markús Már Efraím

Markús er rithöfundur, sem hefur starfað sem grunnskólakennari, bókavörður og frístundaleiðbeinandi. Hann hefur 15 ára reynslu af því að vinna með börnum, sem eru að hans mati besta útgáfan af mannkyninu. Hann hefur kennt yfir 500 börnum skapandi skrif á frístundaheimilum, í skólum, á bókasöfnum og Listasafni Reykjavíkur. Hann hefur hlotið Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla, Hvatningarverðlaun skólanefndar Kópavogs og Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir skapandi starf með börnum. Hann ritstýrði bókinni Eitthvað illt á leiðinni er, safni hrollvekja eftir 8-10 ára nemendur hans, en bókin hlaut tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og hafa sögurnar birst áhorfendum Stundarinnar okkar á ljóslifandi hátt. Markús var einn stofnenda Sagna – samtaka um barnamenningu sem standa m.a. að Sögu verkefninu á KrakkaRÚV og Verðlaunahátíð barnanna. Hann hefur gefið krökkum ráð um ritlist í Stundinni okkar og einnig sest niður og skrifað vampíru-sögu með ungum rithöfundi í þættinum Sögur. Í febrúar 2019 stofnaði Markús Rithöfundaskóla í Gerðubergi þar sem 8-13 ára börn sækja vikulegar ritsmiðjur út önnina. Markús situr einnig í Board of Advisors fyrir The International Alliance of Youth Writing Workshops, alþjóðlegs nets ritvera.

IMG_6807.JPG

 

Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir

Þórhildur er ungur rithöfundur, sem byrjaði að skrifa 10 ára gömul. Hún sótti ritsmiðjur í samstarfi við rithöfundaverið Ordskælv í Kaupmannahöfn, erm er einmitt innblásið af 826 miðstöðvunum. Þar skrifaði hún, ásamt 24 öðrum ungum höfundum, bók um áhrif fátæktar á líf þeirra. Þórhildur hefur einnig sótt Norræna rithöfundaskólann í Biskops Ärno. Hún var valinn fulltrúi á fyrsta Alþjóðaþing ungmennaradda, sem fór fram í San Francisco sumarið 2018. Þórhildur trúir því að raddir allra, ekki síst barna og jaðarsettra hópa, séu þess virði að hlustað sé á þær. Hún vill bæta heiminn með skrifum sínum og undanfarið hefur hún heimsótt félagsmiðstöðvar til þess að ræða fátækt við önnur ungmenni.

IMG_8152

 

Andri Snær Magnason

Andri Snær er margverðlaunaður rithöfundur, leik- og ljóðskáld. Verk hans hafa verið gefin út og flutt í yfir 35 löndum og eitt þekktasta verk hans, barnabókin Sagan af bláa hnettinum, hefur verið þýtt á 30 tungumál og sett á svið víða um heim. Hún var fyrsta barnabókin sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin áður en sér flokkur var stofnaður fyrir barnabækur. Hann hlaut einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Draumalandið – sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð sem hefur verið gerð að áhrifaríkri heimildarmynd. Skáldsagan hans LoveStar var metsölubók og hlaut fjölda verðlauna, þar á meðal special citation of excellence bókmenntaverðlaunanna kennd við vísindaskáldsagnahöfundinn Philip K. Dick. Síðasta bók hans, Tímakistan, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og tilnefningu til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs.

W4B1898landscape-480x362

 

Ævar Þór Benediktsson

Ævar hóf feril sinn sem leikari og varð að þjóðkunnu andliti sem Ævar vísindamaður á miðlum RÚV.  Síðan þá hefur Ævar orðið einn vinsælasti barnabókahöfundur Íslands og ötull talsmaður barna og læsis. Eitt af verkefnum Ævars er Lestrarátak Ævars vísindamanns sem hefur hvatt íslensk börn til þess að lesa yfir 170 þúsund bækur. Ævar hefur hlotið Vorvinda, viðurkenningu IBBY á Íslandi fyrir framlag til barnamenningar, tilnefningu til Grímunnar fyrir besta barnaleikritið og Eddu verðlaunin fyrir besta barna- og unglingaefnið fyrir þættina um Ævar vísindamann. Haustið 2015 var Ævar tilnefndur sem einn af tíu Framúrskarandi ungum Íslendingum hjá JCI á Íslandi. Veturinn 2016 hlaut Ævar aftur þrjár tilnefningar til Eddu verðlaunanna og vann tvenn, þar á meðal fyrir besta barna- og unglingaefnið. Sama ár varð hann sérstakur talsmaður UNICEF á Íslandi.

Veturinn 2017 var Ævar valinn á Aarhus39-listann, lista yfir 39 bestu barnabókahöfunda í Evrópu undir fertugu og hlaut í þriðja sinn Eddu verðlaunin fyrir besta barna- og unglingaefnið. Sama ár hlaut hann tilnefningu til alþjóðlegu ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Awards) fyrir framlag sitt til eflingu læsis, en hann hlaut tilnefningu til sömu verðlauna árið eftir.

Fyrsta bók Ævars í einni vinsælustu barnabókaseríu síðari ára, Þitt eigið ævintýri hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem besta barna- og unglingabókin árið 2017. Hér eru enn ótöld mörg afrek Ævars á sviði barnabókmennta og læsis, en hann hefur sannarlega skapað sér nafn sem einn helsti talsmaður barnamenningar á Íslandi.

Forlagid_Aevar-copy-e1535371286959-750x400

 

Jóna Valborg Árnadóttir

Jóna Valborg er barnabókahöfundur og hefur einnig starfað við markaðsmál, almannatengsl, viðburðastjórnun og kennslu íslensku, leiklistar og lífsleikni í framhaldsskólum. Jóna lék í mörg ár með hinum ýmsu áhugaleikfélögum og hefur reynslu af sýningarstjórnun. Fyrir fyrstu bók sína, Brosbókina, hlaut hún Vorvindaviðurkenningu IBBY og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Í sömu ritröð, sem ætlað er að efla skilning barna á eigin tilfinningum og annarra, fylgdu svo Knúsbókin, Vinabókin og Hetjubókin. Í ár komu svo út tvær bækur eftir Jónu og Elsu Nielsen í nýrri ritröð, Kormákur krummafótur og Einn, tveir og Kormákur. Jóna sat einnig um tíma í ritnefnd tímaritsins Börn og menning.

jona-valborg

 

Gunnar Helgason

Gunni Helga er fyrir löngu þjóðkunnur fyrir framlag sitt til barnamenningar og hann hefur fylgt nokkrum kynslóðum Íslendinga í gegn um æsku þeirra. Auk ritstarfa er Gunnar leikari, leikstjóri, dagskrárgerðarmaður og margt, margt fleira. Hans fyrsta barnabók, Goggi og Grjóni, kom út árið 1992 og síðan þá hefur hann skrifað fjölda bóka. Ásamt Felix Bergssyni var hann umsjónamaður Stundarinnar okkar árin 1994 til 1996 og í kjölfarið hafa þeir félagar sent frá sér ógrynni af barnaefni.

Gunnar hlaut Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar árið 2013 og þrjú ár í röð, 2013-15 hlaut hann Bókaverðlaun barnanna.  Hann hlaut þau verðlaun aftur árið 2018 þegar Sögur – Verðlaunahátíð barnanna var haldin í fyrsta sinn. Þá hlaut Gunnar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Mömmu Klikk!

Fyrsta bók Gunnars um fótboltakappann Jón Jónsson, Víti í Vestmannaeyjum, hefur verið gerð að kvikmynd við góðan róm.

da4c5f_96d0731a91e54e74b5d290804abac3fa_mv2_d_2610_1690_s_2

 

Sigrún Eldjárn

Myndlistarmanninn og rithöfundinn Sigrúnu Eldjárn ætti ekki að þurfa að kynna fyrir nokkrum Íslendingi. Frá árinu 1980 hefur hún sent frá sér tugi barnabóka, m.a. bækurnar um Kugg, Langafa prakkara , börnin á Skuggaskeri og Bétveir – Bétveir. Sigrún myndskreytir allar sínar bækur sjálf en hefur einnig myndskreytt fjölda bóka eftir aðra höfunda, t.a.m. Guðrúnu Helgadóttur, bróður sinn Þórarin Eldjárn og ungu höfundana sem skrifuðu Eitthvað illt á leiðinni er Á ferli sínum hefur Sigrún hlotið fleiri verðlaun en hægt er að telja upp. Hún var fyrst til að hljóta Sögustein viðurkenningu IBBY á ÍSlandi fyrir ævistarf í þágu barna, og hefur einnig hlotið Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í þrígang, Dimmalimm íslensku myndskreytiverðlaunin, þrjár tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunannaVorvindaviðurkenningu IBBY, komist á alþjóðlegan heiðurslista IBBY, tilnefningu til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs,  tilnefningu til H.C. Andersen verðlaunanna og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu. Í ár hlaut hún svo tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bók sína Silfurlykilinn.

file

 

Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Kristín er rithöfundur, teiknari og grafískur hönnuður. Hún hefur myndskreytt ótal barnabækur og m.a. hlotið fyrir það Dimmalimm, íslensku myndskreytiverðlaunin í tvígang og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina Örlög guðanna. Kristín kennir við Myndlistarskólann í Reykjavík og hefur skrifað átta barnabækur. Bók Kristínar, Úlfur og Edda: Dýrgripurinn, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, þýðingarverðlaunanna Other Words  og Barnabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Hún hlaut Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar árið 2015 og árið áður var hún tilnefnd til alþjóðlegs heiðurslista IBBY fyrir myndskreytingar sínar.

Kristín er varaformaður IBBY á Íslandi, kennir við Háskóla Íslands og hefur verið sýningarstjóri barnabókasýninga í Norræna húsinu.

KRG

 

Margrét Tryggvadóttir

Margrét er bókmenntafræðingur og rithöfundur sem hefur látið sig barnabókaútgáfu mikils varða. Margrét hefur skrifað fjölda fræðilegra greina um barnabókmenntir og meistararitgerð hennar við Háskólann á Bifröst fjallaði um umhverfi barnabókmennta á Íslandi. Margrét hefur starfað sem ritstjóri og bókmenntagagnrýnandi auk þess að skrifa sjálf.. Hún skrifaði barnabækurnar Drekinn sem varð bálreiður og Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar í samstarfi við Halldór Baldursson. Ásamt Lindu Ólafsdóttur hlaut hún tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkur fyrir Íslandsbók barnanna.

Margrét hefur einnig setið á Alþingi og er núverandi varaþingmaður.

margrettryggva-610x407

 

Linda Ólafsdóttir

Linda er teiknari og höfundur barnabóka, en hún hefur myndskreytt fjölda bóka og má þar nefna Íslandsbók barnanna, Móa hrekkjusvín, Dúkku og hennar eigin höfundaverk, PLAY? (LEIKA?) sem gefin var út bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi.  

Fyrir verk sín hefur Linda hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og má þar nefna tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016, Fjöruverðlaunin, tilnefningu til Astrid Lindgren Memorial Awards og einnig hefur hún í tvígang hlotið Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir myndlýsingar.  Fyrir Íslandbók barnanna fékk Linda heiðurssæti á lista IBBY (International Board on Books for Young People) 2018.  

Linda er í stjórn FÍT (Félags íslenskra teiknara) og starfar þar sem sérstakur tengiliður við Fyrirmynd (félags teiknara og myndhöfunda).

EJ_sv_hv_for_web