Ókeypis sumarnámskeið

Rithöfundaskólinn hlaut veglegan styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta á dögunum sem gerir okkur kleyft að bjóða upp á ókeypis námskeið í sumar. Styrkurinn er kærkominn eftir lokanir síðustu mánaða en honum bar brátt að svo verið er að leggja lokadrög að skipulagi sumarnámskeiðanna. Stefnan er að hvert námskeið verði 4-5 dagar, útivist muni spila stóran þátt í sköpunarferlinu og gestakennarar muni taka þátt. Faglærður ljósmyndari mun fræða þátttakendur um hvernig sé hægt að segja sögur með ljósmyndum og í kjölfarið verður farið út svo þátttakendur geti tekið sínar eigin ljósmyndir og svo verður unnið með texta út frá þeim myndum.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag námskeiðsins og dagsetningarverða birtar hér á síðunni síðar í vikunni.

Gleðitíðindi

79528106_2839395922739948_8108835505375805440_o

Í gær hlaut Svartiskóli – Rithöfundaskólinn í Gerðubergi hæsta styrkinn úr Samfélagssjóði Landsbankans. Með þessum styrk, auk styrkja úr samfélagssjóðum BYKO og EFLU, Menntamálaráðuneytinu og stuðningi Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, er starfsemi Rithöfundaskólans tryggð á komandi vorönn.

Nánari upplýsingar um önnina og skráningu munu birtast hér á vefnum fljótlega eftir jól. Áfram barnamenning!

Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna

Það hefur alltaf verið ein af höfuðreglum rithöfundaskólans að námskeiðin séu þátttakendum að kostnaðarlausu. Fyrir vikið treystir skólinn á styrki frá opinberum og einkaaðilum. Skólinn hefur verið í smá hléi í haust á meðan verið er að tryggja fjármagn fyrir áframhaldandi starfsemi. Skólinn hefur nýverið hlotið styrki frá Borgarráði og Mennta- og menningarmálaráðherra, sem gerir okkur kleift að halda einhver námskeið fyrir áramót, vonandi í vetrarfríinu. 6A05542B-7B1C-4A17-8161-5A697985E2BA

Það er samt vert að geta stærsta bakhjarls rithöfundaskólans hingað til, sem er Velferðarsjóður barna. Án rausnarlegs stuðnings sjóðsins hefði ekki verið hægt að koma starfsemi skólans af stað. Velferðarsjóðurinn hefur stutt fjölda góðra verkefna undanfarin ár og á hverju ári veitir sjóðurinn einu verkefni sérstök barnamenningarverðlaun. Með gleði í hjarta tókum við við Barnamenningarverðlaunum Velferðarsjóðs barna fyrir árið 2018. Verðlaunin og styrkurinn eru hvatning til þess að halda okkar góða starfi áfram og vonandi verður það öflugra með hverju árinu. Það er ekki spurning að börn eiga þessa starfsemi skilið.

Nú hefur skólinn tekið á loft og það er vonandi að ríki og borg hjálpi til við að halda verkefninu á flugi.

Páskafrí

IMG_6667Ég minni á að það eru engir tímar þessa vikuna í páskafríinu. Kennsla hefst aftur í næstu viku eftir hefðbundnu plani.

Gleðilega páska,

M.

Berst fyrir læsi og ritfærni barna

cropped-tenderloin-center.jpg

Haustið 2015 var rithöfundurinn Dave Eggers gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Þó Eggers sé heimsfræðgur rithöfundur vildi hann bara tala um ástríðuverkefni sitt, sem er að koma upp skapandi ritverum fyrir börn, en hann stofnaði einmitt 826 samtökin í Bandaríkjunum. Að því tilefni ræddi hann við Egil Helgason í Kiljunni um þetta verkefni og möguleikann á því að koma upp slíku ritveri á Íslandi. Viðtalið má sjá hér.

Markús hitti Eggers einmitt á Bókmenntahátíðinni og hefur verið í samstarfi við hann síðan, m.a. um stofnun ritvers í Reykjavík. En síðan eru liðin 3 ár og áform eru ekki nóg. Mikil vinna hefur verið lögð í að bjóða íslenskum börnum upp á þennan möguleika, m.a. með rithöfundaskólanum í Gerðubergi, en til þess að lengra verði haldið er þörf á þátttöku ríkis- og bargaryfirvalda. Foreldrar og aðrir velunnarar geta hjálpað til með því að þrýsta á stjórnvöld, segja frá verkefninu og m.a.s. með því að deila fréttum á samfélagsmiðlum. Saman getum við boðið börnunum okkar upp á öruggt umhverfi þar sem þau fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast.

Skráning í rithöfundaskóla / Registration

Skráning í rithöfundaskólann í Gerðubergi fer fram hér. Það munu því miður ekki allir komast að sem vilja svo „fyrstur kemur, fyrstur fær“ gildir. Allir sem fylla út formið verða látnir vita.
/
The registration form for the young writers academy in Gerðuberg is located here. Participants will be accepted on a first come, first serve basis but everyone who fills out the form will be informed of the results.

image7 (1)

Rithöfundaskóli í Gerðubergi

20090630_4601_0 (1)

:English summary below:

Í næstu viku verður stofnaður rithöfundaskóli fyrir börn í menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Skólinn er skipulagður eins og flestar tómstundir, börn mæta í litlum hópum eftir skóla einu sinni í viku fram að skólaslitum og fá handleiðslu í undirstöðuatriðum skapandi skrifa. Einnig verður farið í vettvangsferðir, rithöfundar koma í heimsókn og listamenn verða með gestakennslu í myndskreytingum. Í lok annarinnar er svo stefnt að því að gefa út bók með verkum nemendanna.

Rithöfundaskólinn er haldinn í samstarfi við Fjölskyldumiðstöðina í Gerðubergi og verður opinn öllum 8 til 13 ára börnum háð skráningu þar sem takmarkað pláss er í boði (skráning hefst á hádegi á morgun). Þökk sé veglegum stuðningi Velferðarsjóðs barna verður skólinn þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu og vonandi nýta sem flestir krakkar, sem hafa áhuga á ritlist, bókum og sköpun, sé þetta einstaka tækifæri.

Auk þess að vera með fasta hópa nemenda yfir önnina, þá stendur einnig til að bjóða upp á stök námskeið í ritlist fyrir áhugasama krakka og verða þau kynnt hér á síðunni.

Skráning í rithöfundaskólann hefst kl 11:00 þriðjudaginn 12. febrúar en þá birtist færsla hér á síðunni með hlekk á skráningarsíðu.

/

The young writers academy will start next week at Gerðuberg cultural centre. The academy is a creative writing program for children age 8 to 13 and is free of charge. Participants will be put in small groups that will arrive once a week after school in Gerðuberg until the end of the semester (in the beginning of June). During the semester the children will learn the foundations of creative writing, meet authors, go on field trips, and have short workshops on illustrations. At the end of the semester we plan to publish a book of the children’s work.

Besides the fixed groups, that will take part weekly, we’ll also offer shorter workshops that will be announced on this page.

Viðtal í Stundinni

suagxkmal3k-_992x620_xlkhh_0m

Viðtal við Markús, sem birtist í prentútgáfu Stundarinnar fyrr í mánuðinum, er nú komið á netið.

Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að Stundinni þá er viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan:

Sístækkandi hópur rit- og myndhöfunda stendur að baki þeirri hugmynd að stofnað verði ritver, eða Barnamenningarhús, í Reykjavík. Þeirra á meðal eru Andri Snær Magnason, Sigrún Eldjárn, Linda Ólafsdóttir og Ævar Þór Benediktsson, svo einhver séu nefnd.

Maðurinn sem hefur haldið verkefninu gangandi, endurtekið knúið dyra hjá borgaryfirvöldum, ríkinu og einkareknum sjóðum, er Markús Már Efraím. Hann hefur á undanförnum árum helgað líf sitt skrifum fyrir og með börnum. Hann hefur meðal annars staðið fyrir ritsmiðjum sem að minnsta kosti fimm hundruð börn hafa sótt. Það vakti nokkra athygli þegar út kom bókin Eitthvað illt á leiðinni er, en hún er samansafn hryllingssagna eftir börn, en Markús ritstýrði henni og gaf hana út á eigin kostnað.

Vinnan hefur nú skilað sér í því að stofnaður hefur verið Rithöfundaskóli fyrir börn í Gerðubergi, með styrk frá velferðarsjóði barna. Öllum börnum verður gefinn kostur á að skrá sig í skólann og komast þau að sem skrá sig fyrst. Hins vegar verður jaðarsettum börnum gefið forskot á skráningu, í samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og grunnskólanna í Breiðholti.

Skólinn er nokkurs konar tilraunaverkefni. Gangi það vel telur Markús að grundvöllurinn fyrir Barnamenningarhús verði orðinn sterkari. Hann segir Breiðholtið ákjósanlegan stað til að byrja á, því þar er tómstundaþátttaka barna töluvert minni en annars staðar. Gert er ráð fyrir að kennsla við skólann hefjist strax í febrúar. Börnin vinna í hópum út önnina og er ætlunin að ljúka henni með útgáfu bókar með sögum eftir þau sjálf.

Ritver fyrir börn um allan heim

Fyrirmyndin að barnamenningarhúsinu sem stefnt er að því að koma á fót eru 826-miðstöðvarnar sem reknar eru víða um Bandaríkin. Þær eru í mjög einföldu máli öruggir staðir þar sem börn geta mætt, tekið þátt í ókeypis ritsmiðjum og öðru skapandi starfi. Það var rithöfundurinn Dave Eggers sem kom þeirri fyrstu á fót og er óþreytandi við að breiða út boðskap þeirra. Hann kom til að mynda á Bókmenntahátíð i Reykjavík árið 2015, þar sem hann ræddi meðal annars um mikilvægi miðstöðvanna.

„Það eru þónokkur ár síðan ég las mér fyrst til um þessar miðstöðvar og heillaðist af hugmyndinni, sem gengur fyrst og fremst út á að gefa krökkunum rödd. Það er aðalmálið. Síðan hef ég heimsótt nokkrar svona miðstöðvar í Bandaríkjunum, kennt þar og sótt námskeið,“ segir Markús, sem nýverið var jafnframt boðið að sitja í ráðgjafarnefnd alþjóðlegra samtaka slíkra miðstöðva. Með honum í stjórn þar eru meðal annars rithöfundarnir Dave Eggers, Chimamanda Ngozi Adichie, Khaled Hosseini og konurnar sem skipulögðu The Women’s March on Washington, ásamt fleiri rithöfundum og mannréttindafrömuðum.

Markús segir áberandi hversu mjög miðstöðvarnar lífga upp á nærumhverfi sitt. „Oft er þeim komið upp á stöðum sem eru jafnvel í niðurníðslu en smita alla jafna út frá sér. Verslunar- og húseigendur í kring taka við sér og svæðin blómstra. En fyrst og fremst er bara rosalega gott fyrir krakka að geta komið saman í öruggu umhverfi, þar sem þau eru með öðrum börnum og fá að virkja sína rödd.“

Segir börnunum draugasögur

Spurður að því hvers vegna hann leggur svo mikla áherslu á að kenna börnum að skrifa sögur er Markús fljótur til svars. „Þetta sameinar það tvennt sem ég hef hvað mesta ástríðu fyrir, barnamenningu og ritstörf. Ég er að reyna að vera rithöfundur sjálfur, ég á sjálfur börn og hef unnið með börnum á ýmsum stöðum undanfarin fimmtán ár. Krakkar eru svo ótrúlega skemmtilegir og gefandi, mér finnst þeir vera betri útgáfan af mannkyninu,“ segir Markús, sem meðfram ritstörfum sínum vinnur á frístundaheimilinu Undralandi við Grandaskóla. „Það er bæði gaman en ekki síður gagnlegt að fá að umgangast börn reglulega, þar sem ég er sjálfur að skrifa fyrir börn. Það er algjör lúxus að fá að vera í kringum markhópinn sinn. Það hjálpar manni heilmikið. Ég kemst stundum ekki yfir það hvað mér finnst krakkar vera frábærir og miklir snillingar. Fólk þarf að veita því miklu meiri athygli.“

Markús byrjaði einmitt að kenna börnum að skrifa sögur þegar hann var starfsmaður á öðru frístundaheimili. „Ég hafði verið að segja börnunum þar draugasögur og þau höfðu mjög gaman af því. En svo fóru foreldrar að hringja í mig, segja mér að börnin væru að missa svefn yfir sögunum. Krakkarnir vildu samt ómögulega að ég hætti að segja þeim draugasögur svo ég fór að hugsa um það hvað ég gæti gert til að halda því áfram, án þess að hræða þau of mikið. Þá datt mér i hug að það væri kannski sniðugt að kenna þeim hvernig draugasögur eru búnar til. Svo höfðu þau bara svo gaman af því og ég ekki síður, svo ég hef verið að þessu síðan.“

Hann hefur haldið ritsmiðjur víða, meðal annars á bókasöfnum, á Kjarvalsstöðum og víðar. Þær hafa hingað til verið ókeypis og stendur ekki til að breyta því. „Það er prinsippmál hjá mér. Mér hefur verið boðið að vera með smiðjur gegn gjaldi en ég hef ekki viljað gera það hingað til. Það eru nefnilega oft krakkarnir sem þurfa mest á þessu að halda, þeir sem njóta sín best, sem hefðu ekki getað mætt á smiðjur sem þarf að greiða fyrir. Ég hef frekar viljað sníkja peninga frá einkaaðilum og hinu opinbera. Í sumar fékk ég til dæmis styrk frá Menntamálastofnun og Velferðarsjóði barna, til að halda ritsmiðjur í öllum hverfum Reykjavíkur.“

Hann segir skrif vera öflugt tæki til að efla læsi. Hann hafi margsinnis orðið vitni að því að lestraráhugi barna hafi aukist, þegar þau fóru sjálf að velta því fyrir sér hvernig á að skrifa sögur. „Þetta er nefnilega stór þáttur í því að efla læsi. Lesskilningur barnanna eykst, því um leið og þau skilja hvernig sögur eru uppbyggðar fara þau að lesa og sjá sögur á annan hátt.“

Vann samkeppni The Writer

Sjálfur skrifar Markús bæði fyrir börn og fullorðna og alla jafna hrollvekjur af einhverju tagi. Hann tók upp á því seint á síðasta ári að senda eina af sögum sínum, sem hann hafði þýtt á ensku, í örsagnasamkeppni eins elsta tímarits Bandaríkjanna, The Writer. Honum til mikillar undrunar vann hann þá keppni og mun sagan hans birtast í marshefti tímaritsins. „Þessi saga er í raun inngangssaga í stærra verk sem ég er að vinna, sem er smásagnasafn fyrir fullorðna. Allar sögurnar gerast í stórri blokk sem er ekki öll þar sem hún er séð,“ útskýrir hann og upplýsir að hann uppáhaldsbókin hans, The Haunting of Hill House eftir Shirley Jackson, hafi verið honum mikill innblástur. Hann hafi verið nokkuð sáttur við söguna en hins vegar alls ekki átt von á að vinna samkeppnina. „Eina ástæðan fyrir því að ég sendi söguna inn var að ritstjórnin bauð upp á gagnrýni, sem ég hafði áhuga á að fá. Ég vildi vita hvað ég gæti lagað svo það kom mjög skemmtilega á óvart að vinna. Þau sögðu að þetta væri falleg saga, sem mér þótti svolítið fyndið.“

Annars hafði Markús lagt þá bók til hliðar, því hann hefur verið á kafi í öðru verkefni, nefnilega hrollvekjuritraðar fyrir börn. Hún er unnin í samstarfi við Sigmund Breiðfjörð Þorgeirsson teiknara. Markús er á því að hryllingur geti vel átt erindi við börn. „Flestir krakkar ráða alveg við hrollvekjur. Ég held að almennt treystum við þeim ekki nógu vel til að skilja og vinna úr skáldskap. Við hlífum þeim gjarnan of mikið, þegar betri leið væri að ræða opinskátt við þau. 6–8 ára gamlir krakkar sem ég vinn með á frístundaheimilinu tala um skrímsli og drauga öllum stundum. Þau horfa á hrollvekjustiklur á Youtube, eftirlitslaus, og þannig skortir þá allt samhengi og skálda í eyðurnar. Ég hef horft á, og lesið, ýmislegt með strákunum mínum, sem eru 4 og 7 ára, sem sumir myndu hneykslast yfir. En við gerum það saman og ræðum skáldskapinn. Fyrir vikið eru þeir ekkert hræddir við það sem kynni að búa í myrkrinu.“

Óbeislað ímyndunarafl

Markús segist hafa áttað sig á því að börn hafi frjórra ímyndunarafl en fullorðnir og að þau hafi ekki alla þá innri stoppara sem fullorðna fólkið hefur þróað með sér. Þegar þau séu einu sinni búin að meðtaka þau skilaboð að allir hafi sögu að segja, haldi þeim engin bönd. „Þá segja þau og skrifa það sem þau vilja. Þau eru ekki eins sjálfsgagnrýnin og við fullorðna fólkið,“ segir hann.

Áður en þau komist á þetta stig þurfi hins vegar stundum að sannfæra þau um að þau, rétt eins og hverjir aðrir, geti orðið rithöfundar. Að allir segi sögur á hverjum degi og þau geti alveg skrifað. „Um leið og þau átta sig á þessu, að þau hafi eitthvað til málanna að leggja og að það sé hlustað á þau, fara þau á flug.“

Hann sér fyrir sér að þegar barnamenningarhús verði orðið að veruleika eigi eftir að byggjast upp sérþekking, sem nýta megi annars staðar, svo sem í skólum og á bókasöfnum. Grunnskólakennarar gætu til að mynda sótt þangað ráðgjöf, svo að þeir geti betur sinnt ritlistarkennslu. Ákjósanlegt væri að barnamenningarhúsið yrði samstarfsverkefni sem flestra, borgin legði til dæmis til húsnæði og ríkið styrkti verkefnið, hugsanlega í gegnum nýstofnaðan Barnamenningarsjóð. Hann nefnir að Reykjavíkurborg hafi nýverið keypt tvo verslunarkjarna í Breiðholti. Tilvalið væri að barnamenningarhús yrði hýst í öðrum þeirra.

Að lokum bendir hann á að ef Ísland ætli áfram að vera yfirlýst bókmenntaþjóð, sem svo margir eru stoltir af, þurfi að þjálfa rithöfunda framtíðarinnar vel. Ekki sé nægilega vel staðið að því í dag. „Við stöndum okkur vel í íþróttastarfi á Íslandi. Hér eru líka góðir tónlistarskólar, en við gerum of lítið fyrir krakka sem hafa áhuga á að vera skapandi, sérstaklega þau sem hafa áhuga á ritlist. Krakkar ættu að geta sótt í að skrifa, alveg eins og í aðrar tómstundir.“

Alþjóðleg samtök ritvera

static1.squarespace-1.png

Nýlega voru stofnuð alþjóðleg samtök ritvera sem starfa í anda 826. Samtökin eru ekki miðstýrð heldur opið net sjálfstæðra ritvera, sem styðja hvert við annað með þekkingu og reynslu. Á síðu samtakanna má finna gagnlegar upplýsingar um að hverju þarf að hafa í huga við stofnun slíks ritvers, yfirlit yfir starfandi ritver um allan heim og dæmi um útgáfuverkefni barna, þar á meðal íslensku bókina Eitthvað illt á leiðinni er sem hlaut tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur. Við samtökin starfar óformlegt ráð rithöfunda og mannréttindafrömuða á borð við Khaled Hosseini, Chimamanda Ngozi Adichie og Dave Eggers en Markús situr þar einnig.

Grimm & Co

Ein af mörgum miðstöðvum, sem eru innblásnar af 826, er Grimm & Co í Rotherham á Englandi. Rotherham er bær sem er líklega fæstum Íslendingum kunnugur þó hann sé á stærð við höfuðborgarsvæðið. Þar til nýlega var bærinn hafði bærinn á sér neikvætt orðspor en árið 2016 ákváðu borgaryfirvöld að leggja allt til svo hægt væri að opna rithöfundamiðstöð í gamalli krá í bænum.

47f5e034811377.58eb881c87d64.jpg

Samfélagið tók allt þátt í að gera staðinn aðlaðandi og spennandi fyrir börn. Þekktir rithöfundar lögðu til söguna á bak við staðinn og arkitektar á svæðinu gáfu vinnu sína. Fyrir vikið varð til ævintýraheimur fyrir börn sem er nú eitt helsta kennileiti og stolt bæjarins.

Fyrir íbúum Rotherham var ekki bara verið að stofna ritsmiðju fyrir börn, það var var verið að gefa bænum nýtt og jákvæðara orðspor og frægð út á við.