suagxkmal3k-_992x620_xlkhh_0m

Viðtal við Markús, sem birtist í prentútgáfu Stundarinnar fyrr í mánuðinum, er nú komið á netið.

Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að Stundinni þá er viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan:

Sístækkandi hópur rit- og myndhöfunda stendur að baki þeirri hugmynd að stofnað verði ritver, eða Barnamenningarhús, í Reykjavík. Þeirra á meðal eru Andri Snær Magnason, Sigrún Eldjárn, Linda Ólafsdóttir og Ævar Þór Benediktsson, svo einhver séu nefnd.

Maðurinn sem hefur haldið verkefninu gangandi, endurtekið knúið dyra hjá borgaryfirvöldum, ríkinu og einkareknum sjóðum, er Markús Már Efraím. Hann hefur á undanförnum árum helgað líf sitt skrifum fyrir og með börnum. Hann hefur meðal annars staðið fyrir ritsmiðjum sem að minnsta kosti fimm hundruð börn hafa sótt. Það vakti nokkra athygli þegar út kom bókin Eitthvað illt á leiðinni er, en hún er samansafn hryllingssagna eftir börn, en Markús ritstýrði henni og gaf hana út á eigin kostnað.

Vinnan hefur nú skilað sér í því að stofnaður hefur verið Rithöfundaskóli fyrir börn í Gerðubergi, með styrk frá velferðarsjóði barna. Öllum börnum verður gefinn kostur á að skrá sig í skólann og komast þau að sem skrá sig fyrst. Hins vegar verður jaðarsettum börnum gefið forskot á skráningu, í samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og grunnskólanna í Breiðholti.

Skólinn er nokkurs konar tilraunaverkefni. Gangi það vel telur Markús að grundvöllurinn fyrir Barnamenningarhús verði orðinn sterkari. Hann segir Breiðholtið ákjósanlegan stað til að byrja á, því þar er tómstundaþátttaka barna töluvert minni en annars staðar. Gert er ráð fyrir að kennsla við skólann hefjist strax í febrúar. Börnin vinna í hópum út önnina og er ætlunin að ljúka henni með útgáfu bókar með sögum eftir þau sjálf.

Ritver fyrir börn um allan heim

Fyrirmyndin að barnamenningarhúsinu sem stefnt er að því að koma á fót eru 826-miðstöðvarnar sem reknar eru víða um Bandaríkin. Þær eru í mjög einföldu máli öruggir staðir þar sem börn geta mætt, tekið þátt í ókeypis ritsmiðjum og öðru skapandi starfi. Það var rithöfundurinn Dave Eggers sem kom þeirri fyrstu á fót og er óþreytandi við að breiða út boðskap þeirra. Hann kom til að mynda á Bókmenntahátíð i Reykjavík árið 2015, þar sem hann ræddi meðal annars um mikilvægi miðstöðvanna.

„Það eru þónokkur ár síðan ég las mér fyrst til um þessar miðstöðvar og heillaðist af hugmyndinni, sem gengur fyrst og fremst út á að gefa krökkunum rödd. Það er aðalmálið. Síðan hef ég heimsótt nokkrar svona miðstöðvar í Bandaríkjunum, kennt þar og sótt námskeið,“ segir Markús, sem nýverið var jafnframt boðið að sitja í ráðgjafarnefnd alþjóðlegra samtaka slíkra miðstöðva. Með honum í stjórn þar eru meðal annars rithöfundarnir Dave Eggers, Chimamanda Ngozi Adichie, Khaled Hosseini og konurnar sem skipulögðu The Women’s March on Washington, ásamt fleiri rithöfundum og mannréttindafrömuðum.

Markús segir áberandi hversu mjög miðstöðvarnar lífga upp á nærumhverfi sitt. „Oft er þeim komið upp á stöðum sem eru jafnvel í niðurníðslu en smita alla jafna út frá sér. Verslunar- og húseigendur í kring taka við sér og svæðin blómstra. En fyrst og fremst er bara rosalega gott fyrir krakka að geta komið saman í öruggu umhverfi, þar sem þau eru með öðrum börnum og fá að virkja sína rödd.“

Segir börnunum draugasögur

Spurður að því hvers vegna hann leggur svo mikla áherslu á að kenna börnum að skrifa sögur er Markús fljótur til svars. „Þetta sameinar það tvennt sem ég hef hvað mesta ástríðu fyrir, barnamenningu og ritstörf. Ég er að reyna að vera rithöfundur sjálfur, ég á sjálfur börn og hef unnið með börnum á ýmsum stöðum undanfarin fimmtán ár. Krakkar eru svo ótrúlega skemmtilegir og gefandi, mér finnst þeir vera betri útgáfan af mannkyninu,“ segir Markús, sem meðfram ritstörfum sínum vinnur á frístundaheimilinu Undralandi við Grandaskóla. „Það er bæði gaman en ekki síður gagnlegt að fá að umgangast börn reglulega, þar sem ég er sjálfur að skrifa fyrir börn. Það er algjör lúxus að fá að vera í kringum markhópinn sinn. Það hjálpar manni heilmikið. Ég kemst stundum ekki yfir það hvað mér finnst krakkar vera frábærir og miklir snillingar. Fólk þarf að veita því miklu meiri athygli.“

Markús byrjaði einmitt að kenna börnum að skrifa sögur þegar hann var starfsmaður á öðru frístundaheimili. „Ég hafði verið að segja börnunum þar draugasögur og þau höfðu mjög gaman af því. En svo fóru foreldrar að hringja í mig, segja mér að börnin væru að missa svefn yfir sögunum. Krakkarnir vildu samt ómögulega að ég hætti að segja þeim draugasögur svo ég fór að hugsa um það hvað ég gæti gert til að halda því áfram, án þess að hræða þau of mikið. Þá datt mér i hug að það væri kannski sniðugt að kenna þeim hvernig draugasögur eru búnar til. Svo höfðu þau bara svo gaman af því og ég ekki síður, svo ég hef verið að þessu síðan.“

Hann hefur haldið ritsmiðjur víða, meðal annars á bókasöfnum, á Kjarvalsstöðum og víðar. Þær hafa hingað til verið ókeypis og stendur ekki til að breyta því. „Það er prinsippmál hjá mér. Mér hefur verið boðið að vera með smiðjur gegn gjaldi en ég hef ekki viljað gera það hingað til. Það eru nefnilega oft krakkarnir sem þurfa mest á þessu að halda, þeir sem njóta sín best, sem hefðu ekki getað mætt á smiðjur sem þarf að greiða fyrir. Ég hef frekar viljað sníkja peninga frá einkaaðilum og hinu opinbera. Í sumar fékk ég til dæmis styrk frá Menntamálastofnun og Velferðarsjóði barna, til að halda ritsmiðjur í öllum hverfum Reykjavíkur.“

Hann segir skrif vera öflugt tæki til að efla læsi. Hann hafi margsinnis orðið vitni að því að lestraráhugi barna hafi aukist, þegar þau fóru sjálf að velta því fyrir sér hvernig á að skrifa sögur. „Þetta er nefnilega stór þáttur í því að efla læsi. Lesskilningur barnanna eykst, því um leið og þau skilja hvernig sögur eru uppbyggðar fara þau að lesa og sjá sögur á annan hátt.“

Vann samkeppni The Writer

Sjálfur skrifar Markús bæði fyrir börn og fullorðna og alla jafna hrollvekjur af einhverju tagi. Hann tók upp á því seint á síðasta ári að senda eina af sögum sínum, sem hann hafði þýtt á ensku, í örsagnasamkeppni eins elsta tímarits Bandaríkjanna, The Writer. Honum til mikillar undrunar vann hann þá keppni og mun sagan hans birtast í marshefti tímaritsins. „Þessi saga er í raun inngangssaga í stærra verk sem ég er að vinna, sem er smásagnasafn fyrir fullorðna. Allar sögurnar gerast í stórri blokk sem er ekki öll þar sem hún er séð,“ útskýrir hann og upplýsir að hann uppáhaldsbókin hans, The Haunting of Hill House eftir Shirley Jackson, hafi verið honum mikill innblástur. Hann hafi verið nokkuð sáttur við söguna en hins vegar alls ekki átt von á að vinna samkeppnina. „Eina ástæðan fyrir því að ég sendi söguna inn var að ritstjórnin bauð upp á gagnrýni, sem ég hafði áhuga á að fá. Ég vildi vita hvað ég gæti lagað svo það kom mjög skemmtilega á óvart að vinna. Þau sögðu að þetta væri falleg saga, sem mér þótti svolítið fyndið.“

Annars hafði Markús lagt þá bók til hliðar, því hann hefur verið á kafi í öðru verkefni, nefnilega hrollvekjuritraðar fyrir börn. Hún er unnin í samstarfi við Sigmund Breiðfjörð Þorgeirsson teiknara. Markús er á því að hryllingur geti vel átt erindi við börn. „Flestir krakkar ráða alveg við hrollvekjur. Ég held að almennt treystum við þeim ekki nógu vel til að skilja og vinna úr skáldskap. Við hlífum þeim gjarnan of mikið, þegar betri leið væri að ræða opinskátt við þau. 6–8 ára gamlir krakkar sem ég vinn með á frístundaheimilinu tala um skrímsli og drauga öllum stundum. Þau horfa á hrollvekjustiklur á Youtube, eftirlitslaus, og þannig skortir þá allt samhengi og skálda í eyðurnar. Ég hef horft á, og lesið, ýmislegt með strákunum mínum, sem eru 4 og 7 ára, sem sumir myndu hneykslast yfir. En við gerum það saman og ræðum skáldskapinn. Fyrir vikið eru þeir ekkert hræddir við það sem kynni að búa í myrkrinu.“

Óbeislað ímyndunarafl

Markús segist hafa áttað sig á því að börn hafi frjórra ímyndunarafl en fullorðnir og að þau hafi ekki alla þá innri stoppara sem fullorðna fólkið hefur þróað með sér. Þegar þau séu einu sinni búin að meðtaka þau skilaboð að allir hafi sögu að segja, haldi þeim engin bönd. „Þá segja þau og skrifa það sem þau vilja. Þau eru ekki eins sjálfsgagnrýnin og við fullorðna fólkið,“ segir hann.

Áður en þau komist á þetta stig þurfi hins vegar stundum að sannfæra þau um að þau, rétt eins og hverjir aðrir, geti orðið rithöfundar. Að allir segi sögur á hverjum degi og þau geti alveg skrifað. „Um leið og þau átta sig á þessu, að þau hafi eitthvað til málanna að leggja og að það sé hlustað á þau, fara þau á flug.“

Hann sér fyrir sér að þegar barnamenningarhús verði orðið að veruleika eigi eftir að byggjast upp sérþekking, sem nýta megi annars staðar, svo sem í skólum og á bókasöfnum. Grunnskólakennarar gætu til að mynda sótt þangað ráðgjöf, svo að þeir geti betur sinnt ritlistarkennslu. Ákjósanlegt væri að barnamenningarhúsið yrði samstarfsverkefni sem flestra, borgin legði til dæmis til húsnæði og ríkið styrkti verkefnið, hugsanlega í gegnum nýstofnaðan Barnamenningarsjóð. Hann nefnir að Reykjavíkurborg hafi nýverið keypt tvo verslunarkjarna í Breiðholti. Tilvalið væri að barnamenningarhús yrði hýst í öðrum þeirra.

Að lokum bendir hann á að ef Ísland ætli áfram að vera yfirlýst bókmenntaþjóð, sem svo margir eru stoltir af, þurfi að þjálfa rithöfunda framtíðarinnar vel. Ekki sé nægilega vel staðið að því í dag. „Við stöndum okkur vel í íþróttastarfi á Íslandi. Hér eru líka góðir tónlistarskólar, en við gerum of lítið fyrir krakka sem hafa áhuga á að vera skapandi, sérstaklega þau sem hafa áhuga á ritlist. Krakkar ættu að geta sótt í að skrifa, alveg eins og í aðrar tómstundir.“

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s